fimmtudagur, 28. mars 2019

Þær koma inn og út úr lífi mínu eftir þeirra hentuleika.
Þegar allt fer í klessu hjá þeim koma þær og biðja um aðstoð.
Komdu og hjálpaðu mér.
Komdu og bjargaðu mér.
Ég get ekki gert þetta ein.
Hann sveik mig.
Hann fór illa með mig.
Hann er að heimta peninga.

Og ég kem.
Og ég hjálpa þeim.
Ég geri það sem gera þarf.
Ég moka út skítnum.
Ég sem um greiðslur.
Ég fer með þeim á spítala.

Svo verð ég veik.
Svo þarf ég hjálp.
Ég bið ekki um hjálp.
Frekar skríð ég á fjórum fótum til að gera það sem ég þarf.
Svo segir líkaminn NEI.
Þú getur þetta ekki lengur.
Ef þú hættir þessu ekki sjálf þá stoppa ég þig.
Og líkaminn tekur völdin, heilinn segir haltu áfram en líkaminn segir NEI.
Þú og vitundin getið haldið áfram að reyna en líkaminn tekur yfir taugakerfið og segir NEI.
Ef þú reynir að stíga í fótinn þá kippi ég honum undan þér.
Ef þú reynir að lyfta þessu fargi þá færðu virkilega að finna fyrir því og þú skríður ekki á fjórum fótum vegna þess að þú sért að drepast úr þráa, þú skríður því þú getur ekki annað.
Ég, vitundin sem ræður heldur áfram að reyna en refsingin verður bara verri og verri.
Ég er vitundin og ég ræð, ég fæ sterkustu verkjalyfin, ég skal sína þér hver ræður.
Það virkar í stuttan tíma en fljótlega þarf meira af verkjalyfjum og meira og meira.
Allt í einu er það ekki bara líkaminn sem segir NEI.
Allt í einu er ég, vitundin ekki lengur með fulla stjórn, ekki einu sinni af mér.
Allt í einu er vitundin ekki lengur að fullu undir minni stjórn. Það hefur eitthvað gerst.
Ég hef ekki allar þær hömlur sem ég áður hafði.
Ég segi hluti og geri hluti sem ég hefði aldrei gert áður, allt kemur vitlaust út úr mér.
Það er ekki lengur ég, vitundin.
Það er ég, vitundin og ópíóðarnir og þeir gera óskunda í ennisblaðinu, það hlýðir ekki lengur.
Ég stjórna ekki lengur líkamanum og ég stjórna ekki að fullu vitundinni heldur.
Ég verð að losna við ópíóðana, það skiptir ekki lengur máli hvað ég tek mikið af þeim, ég næ samt ekki að stjórna líkamanum heldur.
Það er eitt að líkami minn segi NEI, ég læt ekki eitthvað utan að komandi eins og ópíóða stjórna mér.
Ég er búin að taka of mikið of lengi, ég get ekki bara hætt en bíddu bara, ég skal sína þér hver ræður.
Ég minnka ópíóðana eins hratt og ég get og það gengur vel, það ræður enginn yfir mér.
Svo gerist það, ég mæti vegg.
Líkaminn segir, sjáðu hvað þú gerðir, þú hlustaðir aldrei, ef þú vilt sofa, ef þú vilt standa í fæturna þá getur þú ekki hætt að taka ópíóðana, skaðinn er of mikill.
Líkaminn getur ekki gert það sem ég bið hann um, ég er farin að biðja, ekki skipa.
Ópíóðarnir leika enn lausum hala í ennisblaðinu og vitundin, ég, fell hratt í djúpt svartnætti.
Endalausar læknaheimsóknir, endalausar myndatökur, ekkert hægt að gera nema skrá skaðann.
Stundum horfi ég á heiminn út úr djúpa svartnættinu, það er það eina sem ég get gert.
Ég horfi á þær sem ég áður hjálpaði, enginn biður mig um hjálp, ég er gagnslaus.
Þær halda áfram að gera mistök, stór og slæm mistök, sjá þær ekki hvað þær eru að gera.
Þær hugsa ekki um mig en ég hugsa um þær.
Ég hef enn áhyggjur af þeim, það hverfur ekki bara, ég var dregin inn í þeirra líf.
Ég er ekki hluti af þeirra lífi lengur, ég geri ekkert gagn, ég skipti ekki máli lengur.
Upp úr svartnættinu og ópíóðaþokunni reyni ég að vara þær við en allt kemur vitlaust út.
Þær verða sárar, reiðar, hvern djöfulan er ég að skipta mér að, ég fæ að heyra það.
Nú eru þær orðnar þau og ég voga mér að gagnrýna þá svo nú láta þeir mig heyra það líka.
Mér hefur verið úthýst allsstaðar, enginn vill heyra í mér eða sjá mig.
Ég sit ein í djúpu svartnættinu með brotinn líkama og brotna sál.
Ekki einu sinni ópíóðarnir geta sefað þennan sársauka.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli