miðvikudagur, 2. janúar 2019

Maður velur sér ekki fjölskyldu
Ef það eru ekki orð að sönnu.

Það verður bersýnilega ljóst þegar kemur að stórhátíðum eins og jólum og áramótum. Maður neyðist til að umgangast fólk sem hefur í gegnum tíðina lagt sig fram við að láta manni líða illa jafnvel þegar maður er þegar að upplifa sínar verstu stundir.
Elskuleg systir mín ákvað að misheppnuð sjálfsvígstilraun mín í sumar hafi aðeins verið til að hræða fólk og sækjast eftir... vorkunn? Ég veit svei mér þá ekki hvað hún heldur. Veit ekki hvað hefur komið fyrir hana síðustu ár. Hélt að hún myndi ekki bregðast mér svona en allir aðrir í þessari fjölskyldu hafa brugðist svo hvers vegna ekki hún líka.
Eftir að heilsu minni fór að versna svo mikið að ég get ekki lengur hlaupið til og bjargað öllum hlutum fyrir þau þá fór samúðin og stuðningurinn sömu leið.
Þegar ég þarf mest á þeim að halda eru þau hvergi sjáanleg.

Þessir fáu en góðu vinir sem ég á eru þeir sem hafa verið til staðar fyrir mig. Það er fjölskyldan mín sem ég valdi sjálf. Þau hafa verið til staðar.
Þau hafa bjargað því sem ég hafði ekki heilsu til að sjá um sjálf.
Þegar mér líður sem verst þá les ég sms sem þau hafa sent mér til láta mig vita að þau séu til staðar og þau elski mig. Ég geymi þessi sms í símanum mínum og les þau aftur og aftur. Þegar ég er alveg búin þá les ég þau til að minna mig á það að það sé fólk sem elskar mig og telur að heimurinn sé betri með mig í honum.

Ég fer til geðlæknisins seinna í mánuðinum. Þá fæ ég vonandi einhverjar fréttir um það hvort ég komist í viðtal hjá þessum lækni sem sér um ECT meðferðina. Ef ég kemst ekki í hana og helst fljótlega þá veit ég ekki hvað ég á að gera.