fimmtudagur, 28. mars 2019

Þær koma inn og út úr lífi mínu eftir þeirra hentuleika.
Þegar allt fer í klessu hjá þeim koma þær og biðja um aðstoð.
Komdu og hjálpaðu mér.
Komdu og bjargaðu mér.
Ég get ekki gert þetta ein.
Hann sveik mig.
Hann fór illa með mig.
Hann er að heimta peninga.

Og ég kem.
Og ég hjálpa þeim.
Ég geri það sem gera þarf.
Ég moka út skítnum.
Ég sem um greiðslur.
Ég fer með þeim á spítala.

Svo verð ég veik.
Svo þarf ég hjálp.
Ég bið ekki um hjálp.
Frekar skríð ég á fjórum fótum til að gera það sem ég þarf.
Svo segir líkaminn NEI.
Þú getur þetta ekki lengur.
Ef þú hættir þessu ekki sjálf þá stoppa ég þig.
Og líkaminn tekur völdin, heilinn segir haltu áfram en líkaminn segir NEI.
Þú og vitundin getið haldið áfram að reyna en líkaminn tekur yfir taugakerfið og segir NEI.
Ef þú reynir að stíga í fótinn þá kippi ég honum undan þér.
Ef þú reynir að lyfta þessu fargi þá færðu virkilega að finna fyrir því og þú skríður ekki á fjórum fótum vegna þess að þú sért að drepast úr þráa, þú skríður því þú getur ekki annað.
Ég, vitundin sem ræður heldur áfram að reyna en refsingin verður bara verri og verri.
Ég er vitundin og ég ræð, ég fæ sterkustu verkjalyfin, ég skal sína þér hver ræður.
Það virkar í stuttan tíma en fljótlega þarf meira af verkjalyfjum og meira og meira.
Allt í einu er það ekki bara líkaminn sem segir NEI.
Allt í einu er ég, vitundin ekki lengur með fulla stjórn, ekki einu sinni af mér.
Allt í einu er vitundin ekki lengur að fullu undir minni stjórn. Það hefur eitthvað gerst.
Ég hef ekki allar þær hömlur sem ég áður hafði.
Ég segi hluti og geri hluti sem ég hefði aldrei gert áður, allt kemur vitlaust út úr mér.
Það er ekki lengur ég, vitundin.
Það er ég, vitundin og ópíóðarnir og þeir gera óskunda í ennisblaðinu, það hlýðir ekki lengur.
Ég stjórna ekki lengur líkamanum og ég stjórna ekki að fullu vitundinni heldur.
Ég verð að losna við ópíóðana, það skiptir ekki lengur máli hvað ég tek mikið af þeim, ég næ samt ekki að stjórna líkamanum heldur.
Það er eitt að líkami minn segi NEI, ég læt ekki eitthvað utan að komandi eins og ópíóða stjórna mér.
Ég er búin að taka of mikið of lengi, ég get ekki bara hætt en bíddu bara, ég skal sína þér hver ræður.
Ég minnka ópíóðana eins hratt og ég get og það gengur vel, það ræður enginn yfir mér.
Svo gerist það, ég mæti vegg.
Líkaminn segir, sjáðu hvað þú gerðir, þú hlustaðir aldrei, ef þú vilt sofa, ef þú vilt standa í fæturna þá getur þú ekki hætt að taka ópíóðana, skaðinn er of mikill.
Líkaminn getur ekki gert það sem ég bið hann um, ég er farin að biðja, ekki skipa.
Ópíóðarnir leika enn lausum hala í ennisblaðinu og vitundin, ég, fell hratt í djúpt svartnætti.
Endalausar læknaheimsóknir, endalausar myndatökur, ekkert hægt að gera nema skrá skaðann.
Stundum horfi ég á heiminn út úr djúpa svartnættinu, það er það eina sem ég get gert.
Ég horfi á þær sem ég áður hjálpaði, enginn biður mig um hjálp, ég er gagnslaus.
Þær halda áfram að gera mistök, stór og slæm mistök, sjá þær ekki hvað þær eru að gera.
Þær hugsa ekki um mig en ég hugsa um þær.
Ég hef enn áhyggjur af þeim, það hverfur ekki bara, ég var dregin inn í þeirra líf.
Ég er ekki hluti af þeirra lífi lengur, ég geri ekkert gagn, ég skipti ekki máli lengur.
Upp úr svartnættinu og ópíóðaþokunni reyni ég að vara þær við en allt kemur vitlaust út.
Þær verða sárar, reiðar, hvern djöfulan er ég að skipta mér að, ég fæ að heyra það.
Nú eru þær orðnar þau og ég voga mér að gagnrýna þá svo nú láta þeir mig heyra það líka.
Mér hefur verið úthýst allsstaðar, enginn vill heyra í mér eða sjá mig.
Ég sit ein í djúpu svartnættinu með brotinn líkama og brotna sál.
Ekki einu sinni ópíóðarnir geta sefað þennan sársauka.

þriðjudagur, 5. mars 2019

Raflost

Ég er búin að fara í nokkrar ECT, raflost, meðferðir.
Því miður hef ég ekki fundið stórkostlegan mun enn sem komið er. Það var reyndar ákveðið að taka smá pásu því ég á svo erfitt með að vakna á morgnana. Ég sef út í eitt. Svæfingarlæknirinn, reyndar ekki alltaf sá sami virðist eiga erfitt með að trúa að ég þurfi virkilega svona mikið af vöðvaslakandi.
Raflost valda nefnilega krömpum í líkanmanum eins og enska nafnið gefur til kynna. Þess vegna eru þetta svona svakalegar senur í bíómyndum. Hér áður fyrr var fólk ekki svæft og fékk ekki vöðvaslakandi. Það var einnig yfirleitt kröftugri straumur sem fólk fékk þannig að allir vöðvar líkamans tóku þessi svakalegu krampaköst sem er svo vinsælt að sýna í bíó.
Ég myndi ekki vilja prófa þetta upp á gamla mátan. Ég hef nú þegar fengið harðsperrur eftir nokkrar meðferðirnar og mér verið sagt að ég hafi fengið meiri krampaköst en gert var ráð fyrir.

En ég er búin að vera að tryllast úr pirringi, reiði og sáryndum í dag.
Það er hættulegt á þessari tölvutækniöld. Það sem mig er búið að langa til að senda sms, e-mail, hringja og jafnvel mæta á staðinn er búið að vera stórhættulegt í dag. En ég var búin að lofa sjálfri mér að ég myndi ekki láta undan þessum löngunum. Ég ætla ekki að hafa samband við þetta fólk.

Það er samt óþolandi hvað þau hafa mikil áhrif á mig. Ég var í raun ekki búin að gera mér grein fyrir hversu mikið. En eftir að einn fjölskyldumeðlimur hringdi á sunnudaginn og annar á mánudaginn til að tala við gömlu konuna og svo allar fréttirnar af mislingasmitinu í flugvél í innanlandsflugi er búið að gera mig brjálæða.
Hver er veruleikafyrrtur geðsjúklingur núna Hr. Bessewizzer.
Ég ætlaði bara að eyða þessum sms-um án þess að lesa þau. Mér tókst að gera það með það fyrra en því miður þá var annað sms frá manni sem ég vildi heyra í komið á símaskjáinn þegar það seinna kom svo þegar ég opnaði skjáinn þá komst ég ekki hjá því að sjá byrjunina á seinna sms-inu frá fíflinu.
Mér fannst ekki gáfulegt að fara með tæplega 6 mánaða barn í utanlandsflug til að ferðast um Evrópu. Það er mislingafaraldur í Evrópu eins sagt hefur verið frá í fréttum

Ég er búin að liggja í rúminu í dag með fantasíur um að berja hann. Sérstaklega langar mig þó að koma höndunum utan um hálsinn á honum og kyrkja úr honum líftóruna.
Ég man ekki eftir að hafa fundið fyrir öðru eins hatri og reiði gagnvart annari manneskju fyrr.
Það er yfirgnæfandi tilfinningin sem ég finn fyrir gagnvart þessu fólki sem á að heita fjölskyldan mín.
Ég hata þau.

Ég vildi að ég hefði aldrei byrjað að hjálpa þeim þegar það var komið skríðandi fyrst fyrir rúmum 15 árum núna af verulegri alvöru. Auðvitað var ég búin að hjálpa til með alls konar smálega hluti fyrir þann tíma. Ég hefði átt að láta helvítis krakkann svelta í hel af þessari átröskun sem móðirin gat ekki einu sinni viðurkennt að hafi verið byrjuð meðan að hún bjó enn þá heima hjá henni.
Það var bara upphafið.
Svo þurfti ég í tíma og ótíma að vera að hlaupa til og bjarga hinni dótturinni þegar hún var komin með kvíðaröskun og þunglyndi. Það var hægt að koma og halda fyrir mér vöku fram eftir öllu sem varð til þess að ég gat ekki mætt í endurhæfinguna mína á morgnana og missti þar með af loka tækifærinu til að fara í nám. Nei, það var aldrei hægt að segja mér allann sannleikann og það vill þannig til að þegar maður er að reyna að hjálpa einhverjum þá gerir maður það útfrá þeim upplýsingum sem maður hefur. Og ef maður hefur ekki réttar upplýsingar þá endar á því að maður lítur út eins og fábjáni þegar maður fær sannleikann framan í sig annars staðar frá.
Svo þegar mér varð það á að reyna að ræða það í rólegheitum við aðra innan fjölskyldunnar að ég hefði verið sett í frekar óþægilega stöðu og ég gæði nú ekki mikið gert núna þegar ég væri búin að fá staðreyndir málsins á hreint þá fékk ég það framan í mig að ég væri alltaf svo dómhörð og andstyggileg að það væri aldrei hægt að tala við mig.
Hvers vegna eruð þið þá stanslaust að tala við mig og biðja mig um að bjarga fyrir ykkur hlutunum?
Nei, svo hringir hún í annan fjölskyldumeðlim og snýr svoleiðis út úr öllu sem ég hafði verið að segja. Ekki nóg með það þá þarf hún að annað hvort að garga það svo hátt eða manneskjan sem hún var að tala við með símann svona hátt stilltan að dóttirin heyrir allann misskilninginn og vitleysuna sem er verið að bera á milli og segja að ég hafi sagt hluti sem ég sagði aldrei að núna var dóttirinn alveg miður sín yfir því sem ég sagði reyndar ekki en þær eru búnar að bera á sín á milli að nú er ég orðin vonda manneskjan sem særði barnið svo mikið, því ér er svo fordómafull og dómhörð.

Við skulum taka aðeins auðveldari útgáfu af þessari hringavitleysu.
Dóttirin hringir í mig kvöldið áður hálfgrenjandi og tefur mig við mjög óþægilegar aðstæður en hún getur samt ekki hætt að væla þótt ég segi henni að ég sé ekki í góðri stöðu til að ræða þetta eða neitt annað á þessu augnabliki.
Ég hringi í hana seint um kvöldið til að segja að ég skuli hringja nokkur símtöl daginn eftir og sjá hvort ég geti bætt ástandið eitthvað.
Ég vakna um morguninn. Hringi eitt símtal til að athuga með aðstoð til að leysa málin. Ég get ekki hringt í einstaklinginn sem allt snýst um strax.
Í milli tíðinni hringir móðir stúlkunnar, systir mín, og segir mér að mér hafi ekki verið sagður allur sannleikurinn af dótturinni og málin séu nú flóknari en mér var sagt. Ég segi að þar með geti ég ekkert gert og afskipti mín af málinu sé hér með lokið.
Ég hef samt samband við þriðju systurina í þessari fjölskyldu og segi að mér þyki það nú frekar lélegt að vera að hringja í mig, tefja mig við slæmar aðstæður, og geta svo ekki einu sinni sagt mér allann sannleikann um hvernig málin standa.
Systir mín tekur svona rosalega illa í það að ég telji að aðstæðurnar sem mér var ekki sagt frá skipti það miklu máli að það hafi verið nauðsynlegar upplýsingar. Allt í einu er ég komin í deilur um það hvort framhjáhald skipti yfir höfuð máli í samböndum og þar að auki geti það ekki talist vera framhjáhald ef viðkomandi hafði slitið sambandinu á þessum tíma þótt það hafi verið tveggja vikna tímabil.
Ég taldi að það væri nú mjög einstaklingsbundið hvort og þá hvaða áhrif það myndi hafa en ég teldi það nauðsynlegar upplýsingar miðað við ástand mála.
Afstaða systur minnar var klárlega "We were on a brake!!!"

Eftir þetta stórfurðulega samtal þá hringir hún beint í hina systur okkar, sem var manneskjan sem hringdi sérstaklega í mig til að láta mig vita af stöðu mála.
Þar talar hún hástöfum um það að ég telji stúlkuna druslu. Það vill ekki betur til en svo að systir okkar er að keyra þegar hún fær þetta símtal og umrædd dóttir er með henni í bílnum og hún heyrir allt sem þeim fer á milli.

Fyrst var logið að mér. Síðan hringir systir mín og baktalar dóttur sína. Ég tala við hina systurina sem á við orðið greinilega mjög erfið eigin vandamál að stríða og ákveður að láta það bitna á mér með útúrsnúningi og vitleysu. Hringir svo og tilkynnir hástöfum að ég hafi kallað stúlkuna druslu.
Leiðindin sem komu í kjölfarið á þessu hafa gert líf mitt helvíti á jörð síðustu 6 og hálft ár.
Þetta var í byrjun ágúst 2012. Ég fór inn á geðdeild í fyrsta skipti 12 ár í byrjun nóvermber 2013.

Og eins og þessi systir hafi ekki komið af stað nógu miklum leiðindum þá hringir hún í mig og gömlu eitt föstudagskvöld fyrir circa tveimur árum. Tilkynnir að eldri dóttir systur okkar sé stödd út á landi. Hún sé nýbúin að slíta sambandi við drenginn sem hún var að fjárfesta í íbúð með en eigum alls ekki að hringja í hana til að spyrja hana um málið.
Þetta unga par bjó inn á heimilinu hjá okkur um tíma meðan að þau voru að bíða eftir að fá íbúðina afhenta. Þið megið alls ekki hringja í hana. Hvað haldið þið að gerist....
Ef þetta er ekki til að skapa leiðindi þá veit ég ekki hvað.

Mig er sem sagt mikið búið að langa að hringja á milli og segja við þessa grasasna, "sjáið þið, hvað sagði ég."
Mest af öllu hefði ég samt viljað einmitt núna að þetta fólk væri ekkert skilt mér. Hefði aldrei beðið mig um aðstoð og ég hefði þar með aldrei þurft að gera neitt fyrir þetta fólk.
Ég er búin að þurfa að taka ópíóða að staðaldri núna á fjórða ár eftir að ég bjargaði málunum á síðustu stundu og aðstoðaði við að tæma íbúð systur minnar sem var á fimmtu hæð. Þegar ég var búin að bera niður borðstofuborðið við annan mann þá var bara eitthvað sem gaf sig endanlega í bakinu á mér og ég fór yfir einhvern nýjan þröskuld þegar kom að verkjum og vandamálum.

Ég hata og fyrirlít þetta fólk sem ég þarf að kalla mína nánustu "fjölskyldu"

miðvikudagur, 2. janúar 2019

Maður velur sér ekki fjölskyldu
Ef það eru ekki orð að sönnu.

Það verður bersýnilega ljóst þegar kemur að stórhátíðum eins og jólum og áramótum. Maður neyðist til að umgangast fólk sem hefur í gegnum tíðina lagt sig fram við að láta manni líða illa jafnvel þegar maður er þegar að upplifa sínar verstu stundir.
Elskuleg systir mín ákvað að misheppnuð sjálfsvígstilraun mín í sumar hafi aðeins verið til að hræða fólk og sækjast eftir... vorkunn? Ég veit svei mér þá ekki hvað hún heldur. Veit ekki hvað hefur komið fyrir hana síðustu ár. Hélt að hún myndi ekki bregðast mér svona en allir aðrir í þessari fjölskyldu hafa brugðist svo hvers vegna ekki hún líka.
Eftir að heilsu minni fór að versna svo mikið að ég get ekki lengur hlaupið til og bjargað öllum hlutum fyrir þau þá fór samúðin og stuðningurinn sömu leið.
Þegar ég þarf mest á þeim að halda eru þau hvergi sjáanleg.

Þessir fáu en góðu vinir sem ég á eru þeir sem hafa verið til staðar fyrir mig. Það er fjölskyldan mín sem ég valdi sjálf. Þau hafa verið til staðar.
Þau hafa bjargað því sem ég hafði ekki heilsu til að sjá um sjálf.
Þegar mér líður sem verst þá les ég sms sem þau hafa sent mér til láta mig vita að þau séu til staðar og þau elski mig. Ég geymi þessi sms í símanum mínum og les þau aftur og aftur. Þegar ég er alveg búin þá les ég þau til að minna mig á það að það sé fólk sem elskar mig og telur að heimurinn sé betri með mig í honum.

Ég fer til geðlæknisins seinna í mánuðinum. Þá fæ ég vonandi einhverjar fréttir um það hvort ég komist í viðtal hjá þessum lækni sem sér um ECT meðferðina. Ef ég kemst ekki í hana og helst fljótlega þá veit ég ekki hvað ég á að gera.